Háskóli Íslands

Doktorsvörn í næringarfræði: Laufey Hrólfsdóttir

Fimmtudaginn 11. janúar næstkomandi ver Laufey Hrólfsdóttir doktorsritgerð sína í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Rannsókn á tengslum mataræðis á meðgöngu, þyngdaraukningar og heilsu barna seinna á ævinni. Examining the link between maternal nutrition, gestational weight gain, and later offspring health.

Andmælendur eru dr. Keith Godfrey, prófessor við Háskólann í Southampton, og dr. Þóra Steingrímsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennarar og leiðbeinendur voru dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Sjúrdur Fróði Olsen, prófessor við Harvard School of Public Health, og dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Guðjón Þorkelsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9:00.

Ágrip af rannsókn

Markmið doktorsverkefnisins var að bæta vísindalega þekkingu hvað varðar tengsl næringar verðandi móður, þyngdaraukningar á meðgöngu og efnaskiptaþátta barna. Enn fremur var markmiðið að greina fæðuþætti sem hafa forspárgildi þegar kemur að óhóflegri þyngdaraukningu á meðgöngu. Notast var við tvær ólíkar framvirkar ferilrannsóknir. Greinar I-III voru byggðar á gögnum frá áhorfsrannsókninni Danish Fetal Origins Cohort (DaFO88), sem hófst 1988-1989 í Árósum (n=965) og var með 20 ára eftirfylgni. Grein IV var aftur á móti byggð á nýlegum gögnum frá íslensku þýði, þ.e. PREgnant Women of ICEland (PREWICE) (n=2113). Það getur verið erfitt að nýta niðurstöður áhorfsrannsókna í klínískum aðstæðum. Að hluta til vegna þess að aðferðir sem eru notaðar til að meta fæðuval í þessum rannsóknum eru oft mjög ítarlegar og tímafrekar. Upplýsingum um mataræði í íslensku PREWICE-rannsókninni var því safnað með því að nota stuttan skimunarlista fyrir fæðuval sem gaf mynd af almennu fæðuvali þátttakenda. Niðurstöðurnar benda til þess að næring kvenna á meðgöngu og þyngdaraukning umfram ráðleggingar geti mögulega haft áhrif á gildi bólguþátta á meðgöngu og efnaskiptaþætti barna snemma á fullorðinsaldri. Þrátt fyrir að tengsl við langtímaútkomur barna væru hófleg er ekki hægt að útiloka að þessar lítilvægu breytingar geti orðið greinilegri síðar á ævinni. Niðurstöðurnar frá PREWICE-þýðinu benda einnig til þess að með því að spyrja einfaldra spurninga um fæðuval í upphafi meðgöngu, sé mögulega unnt að finna konur sem þurfa aukinn stuðning og ráðgjöf til að þyngjast í samræmi við ráðleggingar og finna konur í aukinni áhættu á því að fæða þungbura.

Abstract

The aim of this Ph.D. thesis is to enhance understanding of the relation between maternal diet, gestational weight gain (GWG), and offspring’s cardio-metabolic factors. Moreover, the objective is to identify dietary predictors for excessive GWG. Two different prospective observational cohorts were used. Papers I-III were based on data from the observational Danish Fetal Origins Cohort (DaFO88), which was established in 1988-1989 in Aarhus (n=965), with a 20-year follow up. On the other hand, paper IV was based on recently collected data from an Icelandic pregnancy cohort, PREgnant Women of ICEland (PREWICE) (n=2113). Taking advantage of epidemiological findings can be difficult in clinical practice, partially because the dietary assessments used can be very detailed and time-consuming. The data from the Icelandic PREWICE study was, however, collected using a short dietary screening to get a snapshot of the participant’s general diet (weeks 11-14 of gestation). The results indicate that maternal diet and GWG may affect levels of inflammatory factors during pregnancy and offspring cardio-metabolic factors at young adult age. Although the observed associations with offspring’s long-term outcomes were modest, we cannot exclude the possibility that these modest shifts may become more apparent later in life. The results from the PREWICE cohort also indicate that by asking simple questions about women’s dietary habits early in pregnancy, we may be able to identify women in more need of support and counseling to meet the GWG recommendations and find women at higher risk of giving birth to a macrosomic infant.

Um doktorsefnið

Laufey Hrólfsdóttir er fædd á Akureyri árið 1984. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri árið 2004, BS-prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri fjórum árum síðar og MS-prófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Meðfram doktorsnáminu hefur hún starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Laufey hefur nú verið ráðin sem forstöðumaður deildar mennta, vísinda og gæða við Sjúkrahúsið á Akureyri. Foreldrar Laufeyjar eru Hrólfur Skúlason og Hallveig Stefánsdóttir. Laufey er búsett á Akureyri ásamt sambýlismanni sínum Friðriki Ragnari Friðrikssyni og sonum þeirra, Kristófer Kató og Franz Hrólfi.

Doktorsnemi:

Laufey Hrólfsdóttir: lah10@hi.is, 6959898

Leiðbeinendur:  

Þórhallur Ingi Halldórsson: tih@hi.is ,  6905323

Bryndís Eva Birgisdóttir: beb@hi.is , 8592757 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is