Háskóli Íslands

Næring móður og barns fékk 3. verðlaun um Hagnýtarverðlaun HÍ 2017

Tvö verkefni fengu að þessu sinni þriðju verðlaun, annað þeirra er Næring móður og barns.  Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild leiðir teymið sem stendur þar á bak við en aðrir sem hafa lagt mikið af mörkum eru Laufey Hrólfsdóttir, doktorsnemi í næringarfræði, Þórhallur Ingi Halldórsson og Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessorar við Matvæla- og næringarfræðideild, Hildur Harðardóttir, dósent við Læknadeild, og Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir sérfræðiljósmóðir.

Í kringum rannsóknarstarfið sem verkefnið er byggt á hefur verið stofnað fyrirtæki með sama heiti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrstu 1000 dagar lífsins, sem spanna þá meðgöngu og fyrstu tvö ár ævinnar, séu gríðarlega mikilvægir er kemur að næringu. Fósturskeiðið er eitt viðkvæmasta tímabil lífsins og snýst verkefnið um að nýta þá þekkingu sem er til staðar til að auðvelda verðandi mæðrum að velja hollan mat, sér og ófæddu barni sínu til góðs. Opnuð var vefsíðan www.nmb.ismeð það fyrir augum að annars vegar veita fræðslu um næringu og vöxt snemma á lífsleiðinni og hins vegar að bjóða verðandi mæðrum upp á einstaklingsmiðaða endurgjöf. Einstaklingsmiðuð næringarmeðferð sem þessi gengur skrefinu lengra en hefðbundnar ráðleggingar sem byggjast á almennri upplýsingagjöf og mætir þörf fyrir þjónustu sem ekki er fyrir hendi í íslensku heilbrigðiskerfi.

Dómnefndin segir verkefnið hafa afar sterka samfélagslega skírskotun og augljósa hagnýtingarmöguleika. „Skimunarlistinn og upplýsingarnar á vefnum eru afrakstur mikilla rannsókna og er það aðstandendum vefsins til sóma hversu vel er að upplýsingamiðluninni staðið. Verkefnið er gott dæmi um að verið sé að nýta afrakstur rannsókna innan Háskóla Íslands til að hafa áhrif þar sem miklu munar um þær.“

Frétt af HÍ.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson HÍ.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is