Háskóli Íslands

Rannsókn á RÍN og Kvennadeild LSH

Síðastliðið ár hefur öllum barnshafandi konum sem koma í ómskoðun á Kvennadeild Landspítala við 11. – 14. viku meðgöngu verið boðin þátttaka í rannsókn á vegum Rannsóknastofu í næringarfræði og Kvennadeildar Landspítala. Rannsóknin ber heitið: Fæðumynstur á meðgöngu, gagnsemi skimunar á fyrsta þriðjungi meðgöngu.

Markmiðið er að kanna hvort fæðumynstur snemma á meðgöngu, sem metið er með einföldum skimunarlista, tengist þyngdaraukningu á meðgöngu, fylgikvillum á meðgöngu eða inngripum í fæðingu. Vísindasjóður Landspítala, Rannsóknastjóður Háskóla Íslands og Tækniþróunarsjóður styrkja rannsóknina.

Rannsóknarhópurinn hefur haft aðstöðu á Fósturgreiningardeild og hefur gott samstarf við starfsfólk deildarinnar skilað sér í frábærri þátttöku í rannsókninni. Í dag höfðu 2000 konur lokið þátttöku  og að því tilefni færði Rannsóknastofa í næringarfræði starfsfólki deildarinnar þakklætisvott fyrir ómetanlega aðstoð við framkvæmd rannsóknarinnar.

Frétt á fésbókarsíðu Landspítala.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is